Samtök gegn sameiningu sveitarfélaga.

Mér er verulega misboðið.  Ég hlustaði á fréttina frá 04-04 08 um hugmyndir sveitarstjórnaráðherrans um lámarksfjölda íbúa í hverju sveitarfélagi.  Ég læt fréttina fylgja með hér í heild sinni:

-------------

Sveitarfélögum verður  að fækka þótt beita þurfi valdboði, segir Kristján Möller samgönguráðherra.  Hann vill að 1000 manns búi að lágmarki í hverju sveitarfélagi en ekki 50 eins og nú er.  Hundruð sveitarstjórnarmanna settust á rökstóla í morgun og fóru yfir helstu hagsmunamál sín og ekki síst samskiptin við ríkið.

HH: ”Fjármálalegu samskiptin eru alltaf viðfangsefnið á þessum fundum sveitarstjórnarmanna og ástæðan er einföld, verkefnum sveitarstjórnarstigsins er að fjölga.”

Bæði sé samið um að verkefni færist til sveitarfélaga og eins ákveði ríkið einhliða flutning með lögum og reglugerðum.  Peningar þurfi hinsvegar að fylgja.

HH: ”Þetta er ekki  nein þrýstihópsaðgerð af okkar hálfu, við erum hitt stjórnsýslustigið í landinu og við þurfum samstarf við ríkið.”

1990 voru hér rúmlega 200 sveitarfélög en þau eru nú 79.  Í 46 þeirra eru íbúar hinsvegar færri en 1000.

KLM: ”Við viljum efla sveitarfélögin og sveitarstjórnarstigið og þá tel ég að þau þurfi að vera stærri til þess að geta tekið við þeim auknu verkefnum sem við erum að tala um að flytja frá ríkinu eins og málefni fatlaðara og öldrunarþjónustu.”

Núna er lágmarksfjöldi íbúa í hverju sveitarfélagi 50, hana vill Kristján hækka með endurskoðuðum sveitarstjórnarlögum með haustinu og í þeim gæti jafnframt verið að finna einhver ákvæði um sameiningu sveitarfélaga hvort sem sveitarfélögunum líkar það betur eða verr, sjái þau ekki að sér sjálf innan tiltekins tíma.

KLM: ”Ég vil nú auðvitað helst að sveitarfélögin sameinist sjálf af frjálsum og fúsum vilja.  En það gæti þurft að hjálpa þeim til þess.  Og þess vegan hef ég nefnt þessa lágmarksíbúafjöldatölu, að setja hana upp í 1000.  

----------

Ráðherrann gerir enga tilraun til að koma með rök fyrir tillögunni, aðeins þann vilja ríkisins til að flytja fleiri verkefni frá ríkinu yfir á sveitarfélögin.  Tilhneiging sem ríkið hefur haft ansi lengi og framkvæmt án þess að bera endilega undir sveitarfélögin.

Tekjuskipting ríkis  og sveitarfélaga hefur verið deiluefni ansi lengi og það verður að segjast að ríkið með fjármálaráðherra í fararbroddi hefur ekki sýnt minnsta vilja til að koma til móts við óskir sveitarfélaganna, jafnvel þótt að þau hafi verið rekin með tapi síðustu ár, en ríkið hafi fitnað eins og púki á fjósbita.

Mun eðlilegra myndi ég telja aðsetja einhverja hámarksstærð á sveitarfélag í landfræðilegri skilgreiningu.  Það er mjög óeðlilegt að ætlast til að fólk sækji þjónustu innan sveitarfélags, fleiri hundruð kílómetra leið, eins og tillagan mun leiða til.

Þau sveitarfélög á Íslandi sem eru með minnsta útsvarið eru tiltölulega fámennir sveitahreppar.  Þessir sömu hreppar eru jafnframt þeir sem eru að skila bestum rekstri og þar eru álögur á íbúanna jafnframt í beinu hlutfalli við þjónustuna.  Í stórum sameinuðum sveitarfélögum er þessu yfirleitt öfugt farið.  Ekki hefur með neinum hætti verið sýnt fram á að sameining sveitarfélaga hafi skilað raunverulegum árangri fyrir íbúana.  Í fleiri tilfellum en færri má þó sjá að sameining hafi aukið á fólksflótta úr strjábýlli hlutum sameinaðs sveitarfélags, enda er það tilfellið að þjónusta og fjármagn færist til stæsta staðarins á kostnað hinna minni.  Verður því ekki annað séð en að hugmynd ráðherrans sé til þess eins fallin að auka á byggðarröskun í landinu.

Það er kaldhæðnislegt að stjórnvöld séu í krossför gegn byggðum landsins.  Þetta eru kanski mótvægisaðgerðir gegn samdrætti í höfuðborginni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kaldhæðnislegt? þetta mun vera kallað ÞRÓUN,en henni er stýrt,alstaðar,að OFAN.

hreinn (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 00:21

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Sameining sveitarfélaga getur oft á tíðum verið skynsamleg en því miður þá hafa sumir stjórnmálamenn einblýnt á sameininguna í stað þess að taka á vanda landsbyggðarinnar s.s. kvótakerfinu sem kemur í veg fyrir nýliðun í helstu atvinnugrein landsbyggðarinnar.  Í stað þess að taka það til umræðu að breyta kvótakerfinu og vega kosti þess og galla til hlýtar er farið að ræða í gríð og erg sameining sveitarfélaga.

Til þess að meta áhrifin af sameiningu sveitarfélaga má t.d. spyrja hvort að íbúar Bíldudals séu betur settir en íbúar Tálknafjarðar en Bíldælingar ákváðu að ganga inn í Vesturbyggð en Tálknfirðingar ekki.

Einnig má velta þeirri spurningu upp hvort að það myndi breyta öllu fyrir íbúa Strandasýslun þó svo að Drangsnesingar ákváðu að sameinast stóra sveitarfélaginu.  Ég er efins um að það myndi í sjálfu sér breyta miklu fyrir búsetuskilyrði í Strandasýslu.

Það sem myndi gera gæfumun fyrir byggðirnar ef að það yrði gerð tilslökun í samræmi við nýlegt álit Mannréttindanefndar SÞ.

Sigurjón Þórðarson, 13.4.2008 kl. 21:55

3 Smámynd: Sigurður Jón Hreinsson

Já Sigurjón, það væri einmitt mjög gagnlegt að gera könnun á áhrifum þeirra sameininga sem þegar hafa farið fram, áður en menn hella sér útí svona svakalegar pælingar.  Og sem dæmi þá er ég hreint ekki viss um að Svarfdælingar séu neitt sérstaklega sáttir við það hvernig til hefur tekist í sambúð þeirra með Dalvíkingum. 

Og ef við tökum Strandasýsluna sem dæmi þá getur maður spurt sig, hvort að íbúar í Bæjarhreppi séu ekki betur settir með Borgarnesi, heldur en Hólmavík (svipað langt).  Þá yrði útkoman úr sameiningunni að öll önnur sveitarfélög í Strandasýslu yrðu að sameinast, ásamt Reykhólahrepp og annað hvort Dalabyggð eða Vesturbyggð.  Hvað eiga svo þessir íbúar sameiginlegt?

 En ef menn halda það virkilega að sameining sveitarfélaga skipti einhverju máli sem verkfæri til að sporna við fólksflótta af landsbyggðinni, þá er það RANGT.  Sameining sveitarfélaga er fyrst og fremst verkfæri ríkisvaldsins til að fela þennan vanda.  Ef fólk fær að búa við atvinnufrelsi og góða þjónustu frá vel stæðum sveitarfélögum þá þarf það ekki að flytja.  Stjórnvöld hafa séð til þess að hvorugur þessara þátta er til staðar og það breitist heldur ekki við sameiningar.

Að lokum stendur eftir spurningin, ef ríkið ætlar að færa fleiri og fleiri verkefni yfir á sveitarfélögin, má þá ekki leggja niður ríkið?

Sigurður Jón Hreinsson, 13.4.2008 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband