Samgöngur í samhengi

Fyrir réttu ári síðan varpaði ég fram þeirri spurningu; hvers virði 1300 manns væru, sem viðbót við mannlíf á norðanverðum Vestfjörðum.  Skemmst er frá því að segja að enginn hefur lagt í að reyna að svara því með beinum hætti.  Það sem hefur kannski komist næst því að svara þeirri spurningu, eru atriði sem umræðan um mögulega olíuhreinsunarstöð hefur dregið fram.  Og þó svo að það sé frekar óheppilegt að öll umræða um atvinnumál á Vestfjörðum snúist um mögulega olíuhreinsunarstöð, þá hefur umræðan beint kastljósinu á nokkur atriði sem vert er að staldra við, svosem núverandi stöðu atvinnu- og samgöngumála. 

Ástandsskoðun atvinnulífins

Þegar gluggað er í skýrslu Vestfjarðarnefndarinnar, kemur berlega í ljós að þróununin hefur verið sú undanfarin ár, að störfum hefur fækkað í öllum geirum á Vestfjörðum nema í mennta og rannsóknargeiranum.  Í ferðaþjónustugeiranum varð á árunum sem skýrslan tekur á (1999-2005), fækkun starfa um11%.  Það gerist á sama tíma og að fjöldi erlendra ferðamanna á Íslandi fer stigvaxandi.  Í sjávarútvegs- og matvælageiranum varð á sömu árum fækkun starfa um 22%.Ef menn reyna svo að meta ástæður þessarar þróunar, er svarið augljóst í ferðaþjónustunni; afleitar samgöngur.  Og í sjávarútveginum má benda á þrjár ólíkar ástæður; tækniþróun, flutningskostnað og dauðakoss kvótakerfisins, sem er svo aftur efni í margar greinar. 

Ástandsskoðun samgangna

Það má kanski segja; ástand tenginga Vestfjarða, til að taka alla þætti inn í málið.   Segja má að skipta megi tengingunni í fimm meginn þætti.  Tenging raforkukerfisins, tenging háhraðanets, tenging í lofti, tenging á sjó og tenging um vegi.  Skemmst er frá því að segja að ekkert af þessum þáttum geta talist vera viðunandi, á nútíma mælikvarða og samanborið við aðra landshluta, árum og áratugum á eftir.
  • Tíðni orkuleysis á Vestfjörðum er langt yfir landsmeðaltali og er algengasta skýringin á því að Vesturlína slær út.  Það að ekki skuli vera gerðar neinar áætlanir um aðra tengingu eða þá að virkja meira á Vestfjörðum, er ávísun á áframhaldandi ástand.  Það að orkukerfið hér skuli vera með minnsta öryggið á landinu hrekur fyrirtæki frá því að setja hér upp starfstöðvar.
  • Það að einungis sé einn ljósleiðari frá Vestfjörðum og það að tengiöryggi hans sé ekki fullnæjandi, bætir heldur ekki úr skák.  Að varatengingar séu með gamaldags örbylgjusambandi setur Vestfirði alveg út í horn m.a. í umræðunni um netþjónabú.
  • Ástand flugmála í fjórðunginum er heldur ekki beisið.  Á Vestfjörðum er ekki löglegur millilandaflugvöllur.  Það að flug skuli falla hér jafn oft niður og raun ber vitni, er að skaða ferðaþjónustuna gífurlega.  Það að flug til Vestfjarða skuli ekki vera mögulegt nema í björtu, er gríðarlega hamlandi.  Og það að flugvellir á Vestfjörðum séu ekki gerðir fyrir stærri vélar en Fokker, er bókstaflega lamandi fyrir frekari framþróun og sveigjanleika.
  • Staða sjóflutninga er tvíþætt.  Aðstæður á Vestfjörðum eru all góðar til að taka á móti skipaumferð og flutningum þá leiðina.  Hinsvegar er ekkert skipafélag sem vill sinna því hlutverki, og það verður hreinlega að teljast stórundarlegt að stjórnvöld skuli á sínum tíma ekkert hafa aðhafst til að halds strandsiglingum gangandi, sérstaklega í ljósi þess að vegirnir okkar eru nú ekki beint gerðir fyrir þá miklu þungaumferð sem við tók af strandsiglingunum.
  • Samgöngur á landi á Vestfjörðum eru í einu orði; úreltar.  Á köflum má þó finna ágæta vegi, svo sem á milli þéttbýlisstaða á norðanverum fjörðunum og svo aftur á sunnanverðum fjörðunum.  Tenging milli svæðanna hefur frekar hrakað síðustu fjörutíu árin eða svo.  Tenging suðursvæðisins við landið á langt í land, en það hyllir undir það tenging norðursvæðisins við landið verði á bundnu slitlagi........er örugglega árið 2008.....?
 

Umræðan undanfarið

Nú hefur það verið viðurkennt á landsvísu undanfarin 30 ár, að eitt af stæstu hagsmunamálum vestfirðinga í byggðarmálum, er tenging norður og suðursvæðanna.  Og má segja að það sé einsdæmi í Íslandssögunni að þessi tenging sé búin að vera forgangsmál allan þann tíma, en á sama tíma hefur nákvæmlega ekkert gerst.Undanfarið, í sambandi við umræðuna um olíuhreinsunarstöð , hefur þó vaknað meiri áhugi hjá mönnum að ræða það hvernig þeirri tengingu er best háttað.  Menn hafa bent á nokkrar leiðir, en mér finns samt að umræðan sé komin á villigötur þegar hugsanleg stóriðja á að fara að stýra því hvaða tengimöguleikar eru bestir.  Ég hefði frekar talið að það ætti að vera á hinn veginn, að staðsetning hugsanlegrar stóriðju færi eftir því hvaða leið er best og hagkvæmast að leggja veginn.  Þess vegna, finnst mér hugmyndir eins og að gera göng úr Kirkjubólsdal í Dýrafirði og yfir á Bíldudal, vera komnar út úr korti og þar að auki ekki í neinu samræmi við neitt annað.  Það getur aldrei talist æskilegt að hnýta jafn stórtækar vegaframkvæmdir við eitt hugsanlegt stóriðjuverkefni? 

Samhengi

Til að fá sem mest út úr þeim framkvæmdum sem nauðsynlegar eru, þarf að huga vel að samhenginu.  Stytting leiða og ferðaöryggi eru grunnþættir.Bent hefur verið á að til að tengja norður og suðursvæðin saman þarf tvenn jarðgöng, nema þá annaðhvort að gera fyrrnefnd göng beint á milli Bíldudals og Þingeyrar eða að leggja veg yfir Dynjandisheiði.  Einnig hefur m.a. undirritaður bent á að mesta stytting á vegtengingu við landið, fyrir norðursvæðið, sé um svokallaða hálendisleið.Sé þessum tveimur hugmyndum blandað mátulega saman sést að með fyrirhuguðum göngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, vegi út Langanes og göngum þaðan til Bíldudals annarsvegar og hinsvegar yfirbyggðum hálendisvegi austur á Klettsháls má ná fram gríðarlegum styttingum á báðum leiðum.  

  • Þingeyri-Bíldudalur er í dag (715 km á vetrum) 96 km en yrði 55km
  • Ísafjörður-Patreksfjörður er í dag (627 km á vetrum) 172 km en yrði 110 km
  • Þingeyri-Reykjavík er í dag (575 km á vetrum) 407 km en yrði 352 km    
  • Ísafjörður-Reykjavík verður um Arnkötludal 455 km en yrði 373 km
  • Bíldudalur-Reykjavík er í dag 384 km en yrði 348 km.

 Vegalengdir frá Ísafirði

Gera verður ráð fyrir að þegar þveranir fjarða í Reykhólahreppi komast til framkvæmda, verður þá styttingin suður þá leiðina 25 km í viðbót eða eins og myndin sýnir.  

Meira síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Björgvinsson

Þetta er bara nokkuð gott og í samræmi við annað sem þú hefur gert og greinilegt að framsókn á enn nokkra stuðingsatkvæði sem eru genatísk.

Friðrik Björgvinsson, 11.2.2008 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband