LÖNGU tímabær endurskoðun

Það er því miður lýsandi fyrir Þyrnirósarsvefn núverandi ríkisstjórnar, að aðeins eru eftir uþb. 30 dagar af 180 daga fresti sem Mannréttindarnefnd Sameinuðu þjóðanna gaf ríkinu til að lagfæra lögin um stjórn fiskveiða á þann hátt að þau skertu ekki atvinnufrelsi manna.  Ekkert hefur verið unnið í málinu þennan tíma og virðist ríkisstjórnin halda í það hálmstrá að málinu verði ekki fylgt eftir eða að það gleymist.

Það vill svo til að á fundi Atvinnumálanefndar Ísafjarðarbæjar fyrir skemmstu var til umfjöllunar tillaga frá einum fulltrúa í bæjarstjórn, sem var á þá leið að reglur um byggðarkvóta væru settar af ráðuneytinu og þannig komið í veg fyrir að ásakanir um hagsmunaárekstra og hagsmunapot fylgdu úthlutun á byggðarkvóta.  Atvinnumálanefnd treysti sér ekki til að mæla með áður nefndri tillögu.  Ég hinsvegar skilaði svohljóðandi séráliti, en fundargerðina má finna á vef Ísafjarðarbæjar:

"Sigurður Hreinsson skilaði inn séráliti:  Sigurður telur að stjórnvöld þurfi nú þegar að fara í endurskoðun fiskveiðistjórnunarlaga, í kjölfar á áliti mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna.  Lögð verði áhersla á að byggðir landsins fái notið nálægðar við auðlindir hafsins til jafns við aðrar auðlindir á landi og gagnist þeim sem við hana búa.  Er í þeim efnum  vísað til 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.  Með ofangreindum áherslum má losna við það þrætuepli sem byggðakvótinn er, þrátt fyrir góðan ásetning."

Þorskveiði 1920-1995

Það er fyrir löngu orðið tímabært að menn viðurkenni það að þessi rúmlega 20 ára tilraun hefur hrapalega mistekist.  Ekkert af markmiðum kvótakerfisins hefur gengið eftir og það verður að segjast að aldrei hefur það verið jafn fjarri lagi.  Tökum nokkur dæmi:

  • Þvert á yfirlýst markmið um að vernda fiskistofna á Íslandsmiðum eru þeir nú margir í lágmarki, ef ekki að hruni komnir.
  • Þvert á yfirlýst markmið hafa lögin haft skelfilegar afleiðingar í för með sér jafnt fyrir byggðina í landinu, sjávarútvegsfyrirtæki sem þjóðarbúið í heild sinni.  Ekki þarf að fara mörgum orðum um hve vel hefur tekist að ná fram markmiðum laganna um að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Um það ber slæm staða sveitarfélaga víða um land vitni, auk mikillar fólksfækkunar í sjávarbyggðum. Fiskvinnsla í landi heyrir sögunni til í mörgum sjávarplássum.
  • Afkastageta fiskiskipaflotans hefur lítið minnkað þrátt fyrir að skipunum hafi einhvað fækkað.
  • Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja hafa ekkert minnkað, heldur stóraukist og hafa aldrei verið meiri en í dag. Skuldir sjávarútvegsins hafa farið úr um 90 milljörðum í 265 milljarða á rétt rúmum áratug.
Nú er svo komið að fiskveiðiþjóðin er í gíslingu fjármagnseigenda.  Fyrir kvótaeigendur skiptir í dag meira máli að hafa kvótann minni en að hann sé aukinn.  Með þeim hætti er jafnt leiguverð og endursöluverð haldið í hámarki. 


mbl.is VG vilja breyta lögum um stjórn fiskveiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þetta er flottur pistill hjá þér nafni en þú ert ekki alveg  með allra nýjustu tölur.  Skuldirnar sem eru að mestu í erlendri mynnt eru orðnar talsvert hærri. Þess utan selst enginn kvóti í dag og hefur ekki gert lengi. Það er verst hvað það eru fáir framsóknarmenn eins og þú sem hafa áhuga fyrir að tjá sig af viti um sjávarútvegsmál.

Sigurður Þórðarson, 28.5.2008 kl. 00:32

2 Smámynd: Sigurður Jón Hreinsson

Sæll nafni.  Það er alveg rétt hjá þér, tölurnar eru ekki nýjar.  Ef þú ert með nýrri þá væri vel þegið að fá afrit

Sigurður Jón Hreinsson, 28.5.2008 kl. 22:55

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæll nafni, þetta sveiflast með gengi, ég veit að skuldirnar eru komnar eitthvað milli 300 og 350 milljarða líklega nær seinni tölunni. Kerfið er löngu orðið gjaldþrota, sem er í sjálfum sér ágætt því ég var til sjós fyrir vestan og hefur alltaf verið hlýtt til Vestfirðinga síðan. Annars sendi ég þér baráttukveðjur og bestu óskir um að þín sjónarmið fái hljómgrunn meðal framsóknarmanna.

Sigurður Þórðarson, 30.5.2008 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband