Svo Mótus fái meira ?

Ég fékk póst á föstudaginn (9 ágúst), sem ég get ekki sleppt að deila með ykkur.

Nú er það svo að ég er ekkert skárri en margir aðrir, reikningar lenda stundum á hakanum og koma mis vel út úr reikningahappdrættinu.  Sumir eru borgaðir fljótt og vel, en aðrir seint og ílla.  Og því gerist það stundum að ég fæ póst merktan Mótus.

Ég er ekkert að reyna að afsaka mig sjálfann, en vinnubrögð Mótus í þetta skipti eru ekki í lagi !

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, eru bréfin tvö dagsett 1 ágúst.  Í þeim er gefinn 10 daga festur til að greiða skuldina.  Þau eru hinsvegar ekki sett í póst og stympluð fyrr en 6 ágúst.  Þau eru sett í B-póst og skila sér heim til mín 9 ágúst. 

Motus1

 

 

 

 

 

 

Motus2

 

 

 

 

 

Í þessu tilfelli kom það reyndar ekki að sök, því reikningarnir voru báðir greiddir 2 ágúst.  En gefum okkur það að þeir hefðu ekki verið það.

·        Það sem 9 ágúst er föstudagur, er vonlaust að greiða reikningana fyrir tilskyldann tíma nema í gegnum netbanka.

·        Útilokað væri fyrir þann sem fær svona útrunninn frest, að gera neinar ráðstafanir til að afla peninga, hvort heldur sem væri hjá vinnuveitenda eða í eðlilegri lánastofnun, fyrir tilskyldann tíma.

Því veltir maður því fyrir sér hvort að Motus, sé að tryggja sér áframhaldandi viðskipti, með þessum hætti?

Erum við almenningur bara húsdýr sem má blóðmjólka að vild ?

Vill amk hvetja þá sem fá svona póst öðru hvoru, að fylgjast með hvort að fresturinn þeirra sé látinn brenna svona algerlega upp eins og reynt var að gera í mínu tilfelli.

Vill einnig benda fólki á að ákveðnar reglur gilda um innheimtuaðferðir og innheimtukostnað:

Innheimtulög.: 2008 nr. 95 12. júní

Reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar: nr. 37/2009


Peningaprentvél verðtryggingarinnar

Af einhverjum ástæðum eru sumir einstaklingar óþreitandi við að halda fram þeirri skoðun sinni að allir íslendingar beri ábyrgð á hruninu.  Ég reyni stundum að átta mig á því í hverju ábyrgð mín á þeim hörmungum, er fólgin.  Tæplega er það bíllinn minn sem ég hef átt síðastliðin 7 ár og verður 14 ára í sumar.  Ekki er það flatskjáavæðingin, sem enn lætur bíða eftir sér á mínu heimili.  Eða er það kanski íbúðin mín sem við höfum búið í síðustu 9 ár, á hrakvirðissvæðinu Vestfirðir.  Nei ég er helst á því að mín ábyrgð á hruninu liggi í því að hafa leyft gráðugu bankakerfi að fénýta mig ótæpilega í of mörg ár.

Ég er einn af þeim sem tók íbúðarlán hjá banka en ekki hjá Íbúðarlánasjóði, ástæðan var einföld, lægri vextir og þannig ódýrara lán.  Í dag á annar banki með sama nafni lánasafnið mitt, fékk það á hálfvirði á haustdögum 2008.  Sömu lán hafa frá þeim tíma hækkað um ca. 30%, þrátt fyrir að ég hafi staðið í skilum allann þann tíma.  Ég vs. bankinn 130/50.

Mikið hefur undanfarið verið rætt um skuldaniðurfærslu eða leiðréttingu.  Eins og ég hef skilið þá umræðu, þá er ekki verið að tala um að lækka höfuðstól skulda heldur fyrst og fremst þá óeðlilegu hækkun sem verðtryggingin hefur valdið.  Það getur ekki talist eðlilegt að eignahlutur minn í íbúðinni hverfi algerlega vegna verðbólgu, á sama tíma og bankar og þeir sem eiga verðmæti í „peningum“ eru með belti og axlabönd, ónæmir fyrir verðbólgu.

Ágætar hugmyndir hafa verið settar fram, með hvaða hætti lán geta verið leiðrétt.  Til dæmis er hugmyndin um peningamillifærsluleiðina sem gengur út á að Seðlabankinn gefur út skuldabréf fyrir kostnaðinum af skuldaleiðréttingunni, bráðsnjöll aðferð og til þess að gera ódýr.  Samt eru einstaka aðilar sem vilja skjóta hana niður með orðum eins og peningaprentun.  Það tel ég reyndar vera alger öfugmæli.

Því hvað er verðtrygging?  Verðtrygging er í eðli sínu peningaprentun, heimild til bankastofnana til að búa til og eignfæra nýjann pening í eignareikning sinn og margfalda þá upphæð svo sem útlán.  Þannig margfaldast peningamagn í umferð við hvert verðbólguárið og viðheldur endalaust verðbólgubálinu.  Útgáfa Seðlabankans á skuldabréfi til skuldaleiðréttingar, er þannig ekki peningaprentun til að auka peningamagn í umferð, heldur þvert á móti aðgerð til að minnka peningamagn í umferð.  Þessi aðferð er því líkleg til að draga úr verðbólgu öfugt við áðurnefndann verðbótaspíral.

Haustið 2008 ákvað ríkisstjórn og Alþingi að ríkisvaldið skyldi ábyrgjast allar innistæður í bönkum á Íslandi, fyrir allt að 2.300 milljarða. Sömu aðilar telja að ríkisvaldið ráði ekki við að ábyrgjast eigiðfé almennings í fasteignum fyrir 200 milljarða?

Þegar talað er um leiðréttingu á lánum er alltaf talað um þak á upphæðum. Ef sama hefði verið gert á innistæðurnar í bönkum og allar upphæðir undir 8 milljónum verið tryggðar, hefði mátt tryggja uþb. 97% af innistæðum einstaklinga og ca 92% af innistæðum félaga, en spara með því 1.400 milljarða.

Þar fyrir utan var aldrei talað um að sumir innistæðueigendur þyrftu meira á því að halda, að þeirra innistæður væru betur tryggðar en annara.  Þá gilti jafnræðisreglan, en svo hrundi hún líka.  Núna heitir jafnræðisreglan 110% leiðin, allir jafn eignalausir.... 

Þvílík þjóð.


Til hvers dómstólar ?

Er það ekki bara við hæfi að leggja spurningu fyrir nýja árið? 

Íslendingar virðast ekki hafa mikla trú á réttlæti og sanngirni.  Dæmi um það má sjá víða, svo sem eins og í samgöngumálum, sjávarútvegi, jafnréttismálum, fjármálaumhverfi, lífeyrissjóðum og þannig má lengi telja.  Alltaf má finna "hagkvæmnisrök" gegn réttlætinu.

Hvern erum við að blekkja, hversvegna ekki að ganga alla leið og afnema dómstólana og láta hagfræðinga reikna út hagkvæmustu útkomuna í álitamálum?

Eða verður árið 2012 árið sem uppbyggingin hefst eftir siðferðishrunið ?

Gleðilegt nýtt ár :)


Sameining sveitarfélaga

Í ljósi þess að færsluritari hefur einhvað verið milli tannana á fólki undanfarið vegna byggðarmerkismálsins, langar mig að setja fram samlíkingu.

Sameining sveitarfélaga er sögð vera allra meina bót og til að bjarga byggð á Vestfjörðum eru öll sveitarfélög þar sameinuð í eitt. 

Finna varð viðeigandi nafn á króið, sem þó hefði einhverja sögu.  Nafnið Vesturbyggð varð fyrir valinu.  Ekki náðist samstaða um byggðarmerki á þeim tíma.

Til hagræðis í rekstri var öll stjórnsýsla sveitarfélagsins flutt á einn stað, Patreksfjörð.

Svo líður tíminn, sameiningin reynist ekkert draga úr fólksfækkun og fækkar íbúum á 20 ára tímabili, um 40% á flestum stöðum öðrum en Patreksfirði.

Patrekshreppur

Dag einn er dustað rykinu af gömlu merki Patrekshrepps, sem þykir bæði vera fallegt og lýsandi fyrir byggðarkjarna sveitarfélagsins.  Mikil sátt er um ákvörðunina sem þó var tekin í skjóli nætur, án samráðs við íbúa.


Hafró útrýmir sjófuglastofnunum

Sveltistefna Hafró getur seint talist þeirra einkamál.  Sú stefna hefur rústað mörgum byggðarlögum á landsbyggðinni, gert ótal fjölda einstaklinga eignalausa og hefur kostað þjóðarbúið mörg hundruð milljarða í töpuðum útflutningstekjum. 

Nýjustu fórnarlömb "sérfræðinganna" eru sjófuglastofnarnir og krían. 

Besta kerfi í heimi ??


mbl.is Kreppa í Krýsuvíkurbjargi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greiðsluvandi, skuldavandi og eiginfjárvandi....

Ég er þakklátur fyrir það að teljast ekki til þess hóps sem á í alvarlegum greiðsluvanda.  Líklegast er almættinu svo fyrir að þakka og hugsanlega einhvað af þeim snefil af heilbrigðu skynsemi sem stundum skýtur upp kollinum hjá okkur hjónum.  Þannig munu kraftar 12 ára japansks eðalaldrifsbíls áfram verða nýttir af heimilisfólki, ásamt birtu 15 ára hlemmiskjás á sjónvarpskvöldum, svo dæmi séu tekin.

En þó svo að ég glími kanski ekki við greiðsluvanda og eignir mínar ekki það merkilegar að þær hafi skapað mér skuldavanda, þá er eiginfjárvandinn staðreynd.  Og það á örugglega við um stærstann hluta af fjölskyldum landsins. Það sem ég átti í íbúðinni, hirti hrunið, þrátt fyrir ítrasta aðhald í fjármálum í fjölda ára.

Er þetta fyrningarleiðin, að fyrna eignina en tryggja skuldina?  Ef hún er í lagi fyrir almenning er hún þá ekki í lagi fyrir lögaðila eða ríka?

En ég verð að spyrja, hvernig á því stendur að ríkisvaldið gat tekið þá ákvörðun að ábyrgast allar innistæður í bönkum á Íslandi, fyrir allt að 2.300 milljarða, hvers vegna getur ríkisvaldið ekki ábyrgst eigiðfé í fasteignum almennings fyrir 200 milljarða?  Ég geri ráð fyrir að við, almenningur fáum reikninginn í báðum tilfellum.

Þegar talað er um leiðréttingu á lánum er alltaf talað um þak á upphæðum.  Ef sama hefði verið gert á upphæðirnar í bönkum og allar innistæður undir 8 milljónum verið tryggðar, hefði mátt tryggja uþb. 97% af innistæðum einstaklinga og ca 92% af innistæðum félaga, en spara með því 1.400 milljarða.

Fyrir næsta bankahrun (ef ég skildi eiga pening), vinsamlegast minnið mig á hafa þá í banka.  Því þegar peningakerfi hrynur eru peningar öruggasta eignin........ :S


mbl.is 10.700 heimili í greiðsluvanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annað eins hefur ekki sést frá stríðslokum!

Menn eru hugsi yfir framkvæmdaleysi í sjávarútveginum.  Vill í því sambandi benda á nokkrar skýringar.

Minni þorskafli en nokkurntíma síðan á stríðsárunum.

Skuldsetning upp í rjáfur og búið að taka út arðsemi sjávarútvegsins mörg ár eða áratugi fram í tímann.

Afætur í sjávarútveginum, þeir sem veiða ekki kvótann heldur leigja hann bara út, mun verri blóðsugur en þiggjendur listamannalauna :)

Eina framtíðasýnin sem menn hafa er áframhaldandi samþjöppun og sameining fyrirtækja.


Gjaldþrota hugmyndafræði Sjálfstæðismanna

Með nýjasta útspili sínu hafa Sjálfstæðismenn enn og aftur sent almenningi löngutöngina. Það þótti ekki tiltökumál að ábyrgjast 2300 milljarða, á kostnað almennings, langt umfram skyldur og heilbrygða hugsun.

En stökkbreittar skuldir almennings í húsnæðislánum skal fólk allt borga í topp og helst meira. Sú leið sem Sjálfstæðismenn vilja fara til að blóðmjólka almenning er að lækka greiðslubyrgðina um helming í þrjú ár.  Hafa menn ekki reiknað út hvað það kostar???

Sú leið mun gera stóran hóp fjölskyldna tæknilega gjaldþrota og hækka heildar endurgreiðslu á 18 milljón króna 40 ára láni úr 40,5 milljónum og í 65,3 milljónir.

Alveg í stíl við annað á þeim bænum! 


Munar ríkinu ekkert um 1.400 milljarða ?

Með hreint fádæma heimskulegri ákvörðun ríkisstjórnar Geirs H. Haarde, um að ríkið ábyrgðist allar bankainnistæður á Íslandi í bankahruninu, varð tjón ríkissjóðs meira en dæmi eru um.  Hefði hinsvegar verið sett þak á upphæðirnar og allar innistæður undir ákveðinni upphæð verið tryggðar, hefði mátt tryggja uþb 97% af innistæðum einstaklinga og ca 92% af innistæðum félaga.  Ég hvet alla að lesa um þetta nánar hér.

Í sama ljósi er sérkennilegt að lesa skrif fyrrum sjávarútvegsráðherra, þar sem hann heldur uppi vörnum fyrir kerfi sem engin þörf er á, nema fyrir kerfið sjálft.  Kvótakerfi sem slík eru ekki sett á fyrir fjármálastofnanir, heldur er það kerfi til að stýra veiðum.  Ef veiðarnar eru ekki það miklar að þurfi að stjórna þeim á að leggja kerfið af, svo einfalt er það.


Minningarheimreiðin um Jón Sigurðsson

Sælt veri fólkið.

Á næsta ári verður haldið upp á að 200 ár verða liðin frá fæðingu eins af merkilegustu sonum þessarar þjóðar, Jóns Sigurðssonar frá Hrafnseyri.  Þykir sumum af því tilefni vera við hæfi að framkvæma ýmislegt eins og hér og hér er lýst.  Ekki eru allir sammála um það eins og sjá má í athugasemdum við eldri greinina og einnig hérna.

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að minningu forsetans sé betur á lofti haldið með því að berjast fyrir hugsjónum hans.  Steinsteypa og malarplön eru minnisvarðar þeirra sem reisa.

Set hér inn í lokin pistil sem ég fann á netinu og á bara ágætlega við:

Eftirfarandi eru bakþankar Hrafns Jökulssonar, teknir að láni úr Fréttablaðinu 16-08´04

Flotinn mikli sem hvarf

Sólin ræður ríkjum í Arnarfirði. Hér á Hrafnseyri fæddist Jón Sigurðsson, 17. júní 1811, og hér ólst hann upp og héðan eru fyrstu afrekssögurnar. Um fermingaraldur fór hann að stunda fiskveiðar með pabba sínum en átti bara að fá helming af launum fullorðins manns. Jón sætti sig ekki við það, heimtaði fullan hlut og fékk. Enda var hann duglegur, segir organistinn á Hrafnseyri, sem lóðsar gesti um liðinn tíma.

BÆRINN sem Jón fæddist í er nú safn. Við getum skoðað herbergið þar sem sjálfstæðishetjan fæddist. Og þarna er Arnarfjörðurinn, glampandi fagur.
En það er enginn bátur á sjó. Ekki í dag, ekki í gær. Og varla á morgun.

OKKUR er sagt að auðlindir hafsins séu sameign þjóðarinnar. Það segja þeir á Alþingi. Í kaffistofunni í bæ Jóns Sigurðssonar er hlegið gleðisnauðum hlátri að þessari öfugmælavísu. Staðreyndirnar hér vestra tala sínu dapra máli.

ÞAÐ ER eins og togurunum hafi hreinlega verið stolið, segir gestur í kaffistofu
Jóns, með hraukaðan disk af vöflum, randalínum og kleinum. Hann steingleymir
veitingunum, þegar hann ferðast í huganum milli þorpanna á Vestfjörðum:
Enginn togari er lengur eftir á Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Súðavík eða Bolungarvík.

ÁÐUR voru meira en tuttugu togarar gerðir út frá Vestfjörðum. Nú er einn eftir í Hnífsdal og kannski tveir, þrír á Ísafirði.

HVAÐ er hægt að gera? spyr roskin kennslukona, sem er í heimsókn á Hrafnseyri ásamt eiginmanni og dóttur. Og þetta er góð spurning, eina spurningin sem skiptir máli. Þetta er spurningin sem stjórnmálamennirnir eiga að vakna upp með á vörunum. Svo eiga
þeir að drífa sig í vinnuna og leysa málin. Það er ekkert sérstaklega flókið, því málið snýst um réttlæti.

HVAÐ hefði Jón Sigurðsson gert? Barátta fyrir réttlæti var alltaf kjarninn í starfi hans og hugsun. Hefði Jón Sigurðsson horft aðgerðalaus á þorpin á Vestfjörðum sofna, eitt af öðru? Hefði Jón Sigurðsson horft upp á togarana hverfa, einn af öðrum? Hefði Jón Sigurðsson
þolað að kvótinn, lífsbjörg þorpanna, hefði sogast burt í nafni hagræðingar, en svo er það kallað þegar sægreifarnir okkar þurfa að auka hjá sér gróðann?

Á ÞESSUM fallega sunnudegi á Hrafnseyri við Arnarfjörð erum við helst á því að Jón forseti hefði barið í borðið, og heimtað hlutinn sinn og Vestfirðinga.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband