1.6.2008 | 21:49
Sjómannadagur 2008
Pétur J. Thorsteinsson kom til Bíldudals árið 1880 og hófst þá mesta uppgangstímabil í sögu staðarins. Í hans tíð var óvíða á landinu eins blómlegt atvinnulíf og á Bíldudal. Mörg skip átti hann og gerði út. Í apríl 1898 keypti hann gufuskipið Mugg sem var fyrsta íslenska stálskipið sem var gert út til fiskveiða. Skipið var 75 brúttólestir og var búið 150 hestafla 2ja þjöppu gufuvél. Af einhverri ástæðu er þessari staðreynd í íslenskri úgerðarsögu ekki haldið á lofti.
Bíldudalur er einhvert skýrasta dæmi um mannréttindabrot íslenskra stjórnvalda gegn þegnum sínum. Á þeim árum sem kvótakerfið hefur verið við lýði, hefur íbúum staðarins fækkað um helming. Árið 1898 þegar Pétur Thorsteinsson keypti stálskipið Mugg, bjuggu 248 manns í hreppnum. 1984 voru íbúar Suðurfjarðahrepps 360, en árið 2008 teljast íbúar á Bíldudal vera 175.
Bíldælingar eru duglegt fólk. Eins og annað duglegt fólk sest það ekki út í horn og húkir ef því er bannað að draga fisk. Fólk flytur í burtu þangað sem það má vinna. En atvinnuleysi er ekki eina þrautin, heldur er verðfall á eignum fólks ekki síðra vandamál eða jafnvel sú staða að geta ekki selt. Þetta hefur verið veruleiki mjög margra íbúa á landsbyggðinni undanfarin 24 ár. Það verður fróðlegt að sjá hvað íbúum á höfuðborgarsvæðinu þarf að fækka mikið þar til að ríkisvaldið grípur til aðgerða.
Við Vestfirðingar eigum ekki góða þingmenn. Verst er þó að sá lakasti þeirra skuli vera okkar eini talsmaður í ríkisstjórn. Einar Kristinn Guðfinnsson var á sínum tíma kosinn á þing fyrir þau orð sín að efla krókaveiðar og styrkja það kerfi sem krókaveiðar voru í. Því miður er hann í hinu liðinu og vinnur gegn áðurnefndum loforðum sínum. Kverkatak kvótakerfisins er sífellt að herðast, einyrkjar í útgerð eru deyjandi stétt eins og byggðir landsins.
Ég vil óska sjómönnum til hamingju daginn. Þetta er þeirra dagur, jafnt hátíðar og sorgar, því margann góðann drenginn hefur sjórinn tekið. Íslenska þjóðin stendur í mikilli skuld við þessa stétt manna og hefur sú skuld heldur aukist síðustu ár.
Ég óska sjómönnum og þjóðinni allri bjartri framtíð, vitrari ráðamanna og réttlátara fiskveiðikerfis.
Ekki forsendur til að greiða skaðabætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.