17.11.2009 | 22:08
Nýlenduþjóð ?
Í framhaldi af síðustu færslu er ekki úr vegi að birta hér lesningu sem ég rakst á. Greinin er að vísu ekki ný, en maður getur þá spurt sig, hvort einhvað hafi breyst til batnaðar í millitíðinni?
Efnið er úr grein í RANNÍS blaði frá því 10. mars 2005
"Reykjavík fær til sín hlutfallslega meira af opinberum umsvifum en borgin skilar til hins opinbera í formi skatttekna, samkvæmt nýrri rannsókn Vífils Karlssonar hagfræðings og dósents við viðskiptadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst. Hann hefur um árabil lagt stund á svæðarannsóknir, sem er sérsvið innan hagfræðinnar, og sér samsvörun á milli nýlendustefnu fyrri alda og yfirgang Reykjavíkurvaldsins gagnvart landsbyggðinni.
Vífill segir að um 75% af öllum umsvifum hins opinbera sé í Reykjavík en ríkið fær aðeins rúm 40% skatttekna sinna frá höfuðborginni."
"Landsbyggðin fær molana. Það er ekki verið að sýsla við neina smá aura í þessu sambandi, segir Vífill. Hið opinbera hefur frá árinu 1980 vaxið úr því að velta rúmum 35% af vergri landsframleiðslu í tæp 50%. Á sama tíma hefur landsframleiðslan aukist verulega. Í dag er velta hins opinbera að nálgast 400 milljarða króna ár hvert og því skiptir verulegu máli hvar þessum peningum er ráðstafað."
"Samkvæmt fyrstu niðurstöðum mínum eru 75% af öllum umsvifum hins opinbera í Reykjavík einni. Það fær þó ekki nema 42% af skatttekjum sínum frá borginni. Reykjanes, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur og Seltjarnarnes þar með talin, er ekki ráðstafað nema um 10% af veltu hins opinbera en þaðan koma 31% skattteknanna. Restin af landinu fær ekki til sín nema um 15% af opinberum umsvifum þó að þaðan komi 27% skatttekna."
"Eins og þetta er í dag þá má líkja þessu við nýlendustefnu ýmissa ríkja hér áður fyrr þegar nýlendur voru skattpíndar en sjóðirnir síðan fluttir heim til nýlenduherranna. Ef áhugi er fyrir því að gefa svæðunum jafnari forsendur til hagvaxtar, þá eru þetta sterkar vísbendingar fyrir því að það þurfi annað hvort að færa til stofnanir eða lækka skatta á landsbyggðinni, segir Vífill Karlsson."
Og hverjir eru svo baggi á þjóðinni ?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:09 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.