25.8.2010 | 23:23
Minningarheimreiðin um Jón Sigurðsson
Sælt veri fólkið.
Á næsta ári verður haldið upp á að 200 ár verða liðin frá fæðingu eins af merkilegustu sonum þessarar þjóðar, Jóns Sigurðssonar frá Hrafnseyri. Þykir sumum af því tilefni vera við hæfi að framkvæma ýmislegt eins og hér og hér er lýst. Ekki eru allir sammála um það eins og sjá má í athugasemdum við eldri greinina og einnig hérna.
Persónulega er ég þeirrar skoðunar að minningu forsetans sé betur á lofti haldið með því að berjast fyrir hugsjónum hans. Steinsteypa og malarplön eru minnisvarðar þeirra sem reisa.
Set hér inn í lokin pistil sem ég fann á netinu og á bara ágætlega við:
Eftirfarandi eru bakþankar Hrafns Jökulssonar, teknir að láni úr Fréttablaðinu 16-08´04
Flotinn mikli sem hvarf
Sólin ræður ríkjum í Arnarfirði. Hér á Hrafnseyri fæddist Jón Sigurðsson, 17. júní 1811, og hér ólst hann upp og héðan eru fyrstu afrekssögurnar. Um fermingaraldur fór hann að stunda fiskveiðar með pabba sínum en átti bara að fá helming af launum fullorðins manns. Jón sætti sig ekki við það, heimtaði fullan hlut og fékk. Enda var hann duglegur, segir organistinn á Hrafnseyri, sem lóðsar gesti um liðinn tíma.
BÆRINN sem Jón fæddist í er nú safn. Við getum skoðað herbergið þar sem sjálfstæðishetjan fæddist. Og þarna er Arnarfjörðurinn, glampandi fagur.
En það er enginn bátur á sjó. Ekki í dag, ekki í gær. Og varla á morgun.
OKKUR er sagt að auðlindir hafsins séu sameign þjóðarinnar. Það segja þeir á Alþingi. Í kaffistofunni í bæ Jóns Sigurðssonar er hlegið gleðisnauðum hlátri að þessari öfugmælavísu. Staðreyndirnar hér vestra tala sínu dapra máli.
ÞAÐ ER eins og togurunum hafi hreinlega verið stolið, segir gestur í kaffistofu
Jóns, með hraukaðan disk af vöflum, randalínum og kleinum. Hann steingleymir
veitingunum, þegar hann ferðast í huganum milli þorpanna á Vestfjörðum:
Enginn togari er lengur eftir á Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Súðavík eða Bolungarvík.
ÁÐUR voru meira en tuttugu togarar gerðir út frá Vestfjörðum. Nú er einn eftir í Hnífsdal og kannski tveir, þrír á Ísafirði.
HVAÐ er hægt að gera? spyr roskin kennslukona, sem er í heimsókn á Hrafnseyri ásamt eiginmanni og dóttur. Og þetta er góð spurning, eina spurningin sem skiptir máli. Þetta er spurningin sem stjórnmálamennirnir eiga að vakna upp með á vörunum. Svo eiga
þeir að drífa sig í vinnuna og leysa málin. Það er ekkert sérstaklega flókið, því málið snýst um réttlæti.
HVAÐ hefði Jón Sigurðsson gert? Barátta fyrir réttlæti var alltaf kjarninn í starfi hans og hugsun. Hefði Jón Sigurðsson horft aðgerðalaus á þorpin á Vestfjörðum sofna, eitt af öðru? Hefði Jón Sigurðsson horft upp á togarana hverfa, einn af öðrum? Hefði Jón Sigurðsson
þolað að kvótinn, lífsbjörg þorpanna, hefði sogast burt í nafni hagræðingar, en svo er það kallað þegar sægreifarnir okkar þurfa að auka hjá sér gróðann?
Á ÞESSUM fallega sunnudegi á Hrafnseyri við Arnarfjörð erum við helst á því að Jón forseti hefði barið í borðið, og heimtað hlutinn sinn og Vestfirðinga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.