4.2.2008 | 22:51
Undur Vestfjarða
Þessi grein er ekki nýskrifuð, en virðist enn vera í fullu gildi
Það er á engann hallað, að segja það að Vestfirðir séu alger undraheimur. Náttúra svæðisins ein og sér næjir til að fylla upp í þá túlkun. Saga svæðisins er einnig einstök að mörgu leiti, og mannlífið er það einnig. En það sem gerir Vestfirði þó hvað sérstæðasta á íslenskann mælikvarða í dag, eru samgöngurnar. Í heildina má alveg segja að þær hafa batnað á síðustu árum, en í samanburði við hvað samgöngur á öðrum svæðum landsins hafa batnað mikið meira, má einnig fullyrða að samgöngur á Vestfjörðum fari versnandi. Öfgafyllsta dæmið um staðnaðar samgöngur á Vestfjörðum er tenging norður- og suðursvæðanna. Það má segja að það sé hluti af Samgöngumynjasafni Íslands. Á leiðinni úr Dýrafirði í Vatnsfjörð, er farið um tvær heiðar, Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði, og einnig ekið inn Arnarfjörðinn að norðanverðu. Segja má að síðustu úrbætur á þessari leið hafi verið árið 1959. Það er árið sem leiðin opnast. Síðan þá hefur lítið annað verið gert, en að á stöku stað verið mokuð vatnsrás fyrir ofann veginn og svo hefur vegurinn verið lítillega heflað öðru hvoru. Það þarf varla að taka það fram að umrædd leið er malarvegur af gamla skólanum. Niðurgrafinn að verulegu leiti og sumstaðar lagður með handverkfærum, á tímum síðari heimstyrjaldarinnar. En það er ekki nóg að vegurinn er íllur yfirferðar (fyrir óvana a.m.k.) að sumarlagi, því að það batnar hreint ekki yfir veturinn. Samkvæmt skýrslu Vegagerðarinnar frá árinu 2000, er Hrafnseyrarheiðin að meðaltali ófær vegna snjóa 120 daga á ári. Það eru ca. 4 mánuðir á einu ári. Einn þriðji úr ári. Hvaða tenging er þá frá Ísafirði til Patreksfjarðar yfir vetrartímann? Ég segi hiklaust að það sé ekki nein vegtenging á þeim tíma, en hinsvegar er hægt að fara inn Djúp, suður Strandir, yfir Laxárdalsheiði, vestur dali og Reykhólahrepp, út Barðaströnd og þá ertu kominn á Patreksfjörð. Eftir 639 km. Ef farið er um Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar er leiðin 173 km. Þetta er því lenging um 466 km.En þetta eru bara tölur, sem fólk á ekkert gott með að átta sig á. Þess vegna er gott að setja þær í samhengi við einhvað sem fólk þekkir. Tökum dæmi með sambærilega lengingu á þekktri leið. Leiðin Selfoss-Reykjavík um Hellisheiði er 57 km. Ofangreind lenging samsvarar því að fólk þurfi að keyra frá Selfossi norður Kjalveg, um Blönduós, Holtavörðuheiði, Borgarnes, undir Hvalfjörð og gegnum Mosfellsbæ, samtals 509 km. Og í þrjá mánuði á ári.
Ég geri mér vel grein fyrir því að forsenda fyrir þróun samfélagsins og eflingu byggða um allt land, eru umbætur í samgöngumálum. Og ég veit vel að víða er þörf á miklum úrbótum á því sviði. En það er sérkennilegt að sjá fram á að umrædd leið, með sínum 50 ára gamla vegarslóða skuli enn og aftur vera settur aftast í röðina, og horfa upp á það að gerð verði fleiri jarðgöng (væntanlega fjögur) sem leysa eiga af hólmi vegi sem komnir eru með malbik, áður en byrjað verður að laga þennan veg. Og það er ekki síður sérkennilegt að sjá hvernig vegakerfi höfuðborgarinnar er að springa af bílum sem aðeins er ökumaðurinn í. Slíkt kallar auðvitað á stokka, slaufur, mislæg gatnamót og hvað þetta nú allt heitir. Hluta af samgönguvandræðum landsmanna má laga með bættum almenningssamgöngum, en það á ekki við um allann vandann. Og það á ekki við um tengingu norður- og suðursvæða Vestfjarða. Hafi þjóðin og ráðamenn áhuga á að halda byggð á Vestfjörðum, þarf að gera stórátak í samgöngumálum á svæðinu, ef áhuginn er ekki til staðar, eiga menn að segja það. Núverandi ástand kallar aðeins á flótta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.