Hefur einhver framtíðarsýn?

Í ljósi umræðna undanfarið, er þetta eðlileg spurning.Ég velti því alltént fyrir mér hvernig framtíðarsýn þeir hafa, sem eru gagngert að berjast gegn tengingu norður og suðursvæða Vestfjarða.

  1. Hverjir eru vaxtarmöguleikar Ísafjarðar sem tengipunktur fyrir 5000 manna samfélag.  Endastöð á löngum vegi, fjarri öðrum svæðum.
  2. Getur talist eðlilegt að gera kröfu á að hýsa þjónustu fyrir fólk sem hefur enga möguleika á að njóta hennar?
  3. Er líklegt að ferðamönnum fjölgi við frekari vegaframkvæmdi á Djúpvegi?
  4. Er það virkilega svo, að einu vegtengingarnar sem þörf er á hér, eru til að sækja þjónustu annað.  Höfum við ekkert að bjóða?

 Staðan í dag á VestfjörðumÓskastaðan á Vestfjörðum

Hvert stefnir?

Með áframhaldandi einangrunarstefnu, þurfa Vestfirðingar enga óvini.  Þeir eru sjálfum sér verstir.  Ekki á það þó við um alla en það er talsvert af svörtum sauðum.  Sumir tala á þá lund að það sé mjög eðlilegt og ásættanlegt ástand að Vestfirðir séu tvö algerlega aðskilin svæði 4 til 6 mánuði út ári.  Og þess á milli tengd með SEXTÍU ÁRA gömlum vegum. 

Ég kýs að sneiða hjá því að nefna nöfn, en nokkrir eru svo óforskammaðir í sínum málflutningi að kalla eftir óskoruðum stuðningi við áframhaldandi aðskilnaðarstefnu og frekari sóun á almannafé með jarðgöngum undir Kollafjarðaheiði.  Þessir menn ganga svo langt að segja það að íbúar suðursvæðis Vestfjarða hafi ekkert á Ísafjörð að gera.  Einn af þeim talar væntanlega af eigin reynslu, enda fyrrverandi sveitarstjórnarmaður í ónafngreindu sveitarfélagi við Djúp.

Fari menn ekki að hugsa sinn gang alvarlega mun byggðamynstur Hornstranda stækka umtalsvert á næstu árum.   

Hugmyndir með markmið

Ég hef þegar kynnt hugmyndir um tengingu Vestfjarða í eitt svæði með jarðgöngum, annarsvegar milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar og hinsvegar með jarðgöngum undir Suðurfirði, úr Langanesi til Bíldudals.  Samhliða þeim tillögum kynnti ég hugmyndir um yfirbyggðann veg úr Dynjandisvogi og austur í Skálmarfjörð.

Allar spurningar eru eðlilegar þegar svo róttækar tillögur eru uppi á borðinu.  Og mikið af þessum spurningum hef  ég líka spurt mig að.  En til að skýra aðeins mitt mál þá kem ég hér með þau markmið sem tillögur mínar styðjast við.

  1. Stytta sem kostur er vegalengdir milli þéttbýlisstaða á Vestfjörðum.  Í mínum huga er ekki nóg að gera eingöngu tengingu í Vatnsfjörð, þar sem fjarlægðir milli þéttbýlisstaða verður þrátt fyrir þá tengingu talsvert miklar.  Og sé miðað við sumarveg um Dynjandisheiði er talsvert lengri til Bíldudals og Tálknafjarðar um Vatnsfjörð.
  2. Að hlífa eins og hægt er náttúruperlum og komast hjá fyrirsjáanlegum deilum vegna framkvæmda á eða við slíka staði.  Þannig tel ég að göng í Geirþjórsfjörð eða í Vatnsdal yrðu alltaf mjög umdeild.  Svæðin eru friðuð og fullvíst má telja að vegagerð á þessum stöðum myndi hafa mikil umhverfisáhrif á staðina.  Einnig tel ég að frekari þveranir fjarða í Breiðafirði muni verða umdeildar og þar af leiðandi tímafrekar.
  3. Stytting á leiðinni suður.  Með lagningu vegar úr Dynjandisvogi niður á nesið milli Skálmarfjarðar og Kerlingarfjarðar og göngum undir Klettsháls má stytta leiðina suður um rúma 50 km.  Göng þar tel ég hvort eð er vera framtíðarlausn.  Væri þessi vegur yfirbyggður strax á hönnunarstigi, má einfalda mjög lagningu hans og heildarkostnaður við slíkann veg yrði væntanlega álíka og jarðgöng undir Dynjandisheiði eða Kollafjarðaheiði.  Þessi vegur suður yrði hinsvegar ca. 32 km styttri en leiðin um göngin í Vatnsfjörð og hátt í 100 km styttri en leiðin undir Kollafjarðaheiði yrði.  Og að auki getur yfirbyggður vegur verið hættuminni en jarðgöng, að því leiti að fyrirkomulag flóttaleiða eru mun auðveldari í framkvæmd og geta því verið á fleiri stöðum.  Þá má einnig geta þess að yfirbyggður vegur hefur ekki neina "virka hæð" frekar en jarðgöng, þar sem þessi gerð vega er óháð umhverfi sínu og veðráttu.
  4. Í síðasta lagi er það framlag Vestfirðinga til "Samgöngusafns Íslands".  Mín skoðun er sú, að Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði eigi að fá að halds sér að öllu leiti og jafnvel vera frekar færðar til fyrra horfs, ef kostur er.  Þessar tvær heiðar njóta þess vafasama heiðurs að vera nánast orginal 1950 árgerð.  Það er einsdæmi á Íslandi og þótt víðar væri leitað.  Þessum vegum ætti að halda við og gera að ferðamannaslóð.  Ég er nokkuð viss um að hægt sé að markaðssetja það ekki síður en aðrar mynjar.

Atvinnumöguleikar

Með fullkominni láglendistengingu Vestfjarða í eitt þjónustusvæði og stækkuðu atvinnusvæði, gerbreytast allir möguleikar Vestfirðinga.  Möguleikar íbúa í Barðastrandasýslu til að sækja nám á framhalds- og háskólastigi á Ísafirði verða raunhæfir, og það er gríðarlegur ávinningur fyrir alla íbúa Vestfjarða.  Og til gamans setti ég á annað kortið sem fylgja greininni, leið A, yfir Þorskafjörð, því íbúar Reykhóla eru jú líka Vestfirðingar, en það breytir samt ekki vegalengdinni áfram suður.

Samstarf fyrirtækja á svæðinu breytast gríðarlega þegar vegalengdir minnka og verulegir möguleikar á miðlun hráefnis, tækja og vinnuafls verður framkvæmanlegt og stöðugt ástand.Ferðaþjónusta tekur kipp með gríðarlegri styttingu vegalengda bæði til annara landshluta sem og innan Vestfjarða.  Ferðafólk getur auðveldlega  tekið hring um Vestfirði án þess að valda tjóni á bílnum sínum og bílaleigur geta með góðri samvisku leigt bíla til ferðalaga hingað.  Vegur á hálendi Vestfjarða opnar nýja vídd fyrir ferðamenn, og hugsanlega má gera hálendið vel aðgengilegt með opnanlegum útskotum yfir sumartímann. 

Möguleikar á stóriðnaði aukast með öruggum og stuttum vegalengdum milli þéttbýlisstaða og við aðra landshluta, jafnframt opnar þessi tengileið milli norður og suðursvæðanna á eitt stæðsta hugsanlega stóriðnaðarsvæði á Vestfjörðum, Mosdal í Arnarfirði.  Mín skoðun er sú að Mosdalur sé lang heppilegasti staðurinn fyrir td. umskipunarhöfn.  Það er svo aftur annað mál hvort að Vestfirðingar vilji stóriðnað eða ekki.

Ég vil skora á þá sem hafa hugmyndir með markmið að viðra sín sjónarmið, því hugmyndir og ákvaðranataka án samhengis og markmiða er eins og ílla spilandi fótboltalið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband