Ísafjörður, höfuðból eða afdalakot ?

Það er dálítið sérstakt, að það virðist vera nánast ómögulegt að koma af stað vitrænum umræðum um samgöngur á Vestfjörðum.  Í þau fáu skipti sem komið er af stað einhverri umræðu, er það án undantekninga áróðurskennd holskeflu umfjöllun, stýrð af fáum einstaklingum sem hafa yfir að ráða fjölmiðlum eða eru þar inni á gafli.

Gott dæmi um slíka aðferð er umfjöllunin um Óshlíðina.  Af einhverjum ástæðum eru engar fréttir lengur af grjóthruni á Óshlíð.  Er það tilviljun, að eftir að ákveðið var að gera göng í stað vegarins um hlíðina, hefur nánast ekkert fréttst af hruni á hlíðinni.

Annað viðlíka dæmi, er ótrúlegur áhugi Vestfirskra fjölmiðla á Súðavíkurhlíð í vetur.  Þegar það gerðist nokkra í daga að vegurinn varð ófær, var fréttaflutningurinn af því sambærilegur við fréttir af heimstyrjöld.  Ég veit að það var ekki tilviljun, þar átti að nota Óshlíðartaktíkina aftur.  Ósmekklegast fannst mér þó vinnubrögð BB í því máli eins og reyndar venjan er þegar samgöngumál eru annars vegar.  Það var svosem ekki í fyrsta skipti að sá fjölmiðill skellti fram þeirri spurningu hvor göngin ættu að koma fyrr, sem tengja norður og suðursvæði saman eða göng í Djúpinu.  Að egna svæðunum saman með þeim hætti, getur eingöngu leitt til samstöðuleysis og íllinda.

Nú er loksins búið að moka Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiðar.  Loksins eftir samfellda þrjá mánuði, gefst íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum kostur á að skreppa í höfuðstað Vestfjarða og heim aftur á einum degi.  Ég veit það vel að fólki hér finst það nú ekkert stórmál að það sé ófært til Patreksfjarðar.  En ef það er ófært til Reykjavíkur eru himin og jörð að farast. 

Hvaða þýðingu hefur það þá í hugum manna að Ísafjörður eigi að vera höfuðstaður Vestfjarða ?  Í hugum þeirra sem er sama um samgöngur við Patreksfjörð hefur það nákvæmlega ENGA þýðingu.  Ef við fáum einhver störf út á það, er það gott, en að öðru leiti virðist þessu fólki vera skítsama. 

Ég hef undanfarið lagt mig fram við að hugsa upp og koma á framfæri  nýjum nálgunum í samgöngumálum.  Hugmyndir sem byggja á því að efla Vestfirði  sem eina heild.  Tillögur sem myndu gera vegalengdir innan Vestfjarða sem og frá þeim, að áður óþekktum stærðum.  Tillögur sem miða að því að gera Vestfirði samkeppnisfæra við aðra landshluta.  Viðbrögðin við þessum tillögum hafa verið merkilega lítil.

Heimóttarskapurinn og afdalahugsunarháttur virðist oft vera þægilegri en að leggja nafn sitt undir í umræðum um framfarir og framtíð Vestfjarða.

Mér finnst því vera vel viðeigandi að spyrja að því grímulaust, hvort Ísafjörður sé höfuðból eða afdalakot ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Ísafjörður er kanski bara "afdalahöfuðból" ?

Ég hef haft það á tilfinningunni alla tíð.

Hef aldrei skilið af hverju Ísfirðingar og nágrannar kusu að fara Djúpið, Steingrímsfjarðaheiði og Strandir frekar en að styðja okkur á suðurfjörðunum með tengingu á sínum tíma.

Ef fólki í útlöndum yrði sagt að til væru íbúar í sjávarþorpi á Íslandi sem kusu að keyra í 200 kílómetra í norður til að fara svo beint í suður, þá held ég varla nokkur maður mundi trúa því.

Níels A. Ársælsson., 23.4.2008 kl. 23:19

2 Smámynd: Halldór Þórðarson/dóritaxi

 Question Mark

já undarleg getur mannskepnan verið,  að forðast sína nánustu til að ná sambandi við óskilda.

Halldór Þórðarson/dóritaxi, 29.4.2008 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband