Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
9.4.2008 | 22:57
Samtök gegn sameiningu sveitarfélaga.
Mér er verulega misboðið. Ég hlustaði á fréttina frá 04-04 08 um hugmyndir sveitarstjórnaráðherrans um lámarksfjölda íbúa í hverju sveitarfélagi. Ég læt fréttina fylgja með hér í heild sinni:
-------------
Sveitarfélögum verður að fækka þótt beita þurfi valdboði, segir Kristján Möller samgönguráðherra. Hann vill að 1000 manns búi að lágmarki í hverju sveitarfélagi en ekki 50 eins og nú er. Hundruð sveitarstjórnarmanna settust á rökstóla í morgun og fóru yfir helstu hagsmunamál sín og ekki síst samskiptin við ríkið.
HH: ”Fjármálalegu samskiptin eru alltaf viðfangsefnið á þessum fundum sveitarstjórnarmanna og ástæðan er einföld, verkefnum sveitarstjórnarstigsins er að fjölga.”
Bæði sé samið um að verkefni færist til sveitarfélaga og eins ákveði ríkið einhliða flutning með lögum og reglugerðum. Peningar þurfi hinsvegar að fylgja.
HH: ”Þetta er ekki nein þrýstihópsaðgerð af okkar hálfu, við erum hitt stjórnsýslustigið í landinu og við þurfum samstarf við ríkið.”
1990 voru hér rúmlega 200 sveitarfélög en þau eru nú 79. Í 46 þeirra eru íbúar hinsvegar færri en 1000.
KLM: ”Við viljum efla sveitarfélögin og sveitarstjórnarstigið og þá tel ég að þau þurfi að vera stærri til þess að geta tekið við þeim auknu verkefnum sem við erum að tala um að flytja frá ríkinu eins og málefni fatlaðara og öldrunarþjónustu.”
Núna er lágmarksfjöldi íbúa í hverju sveitarfélagi 50, hana vill Kristján hækka með endurskoðuðum sveitarstjórnarlögum með haustinu og í þeim gæti jafnframt verið að finna einhver ákvæði um sameiningu sveitarfélaga hvort sem sveitarfélögunum líkar það betur eða verr, sjái þau ekki að sér sjálf innan tiltekins tíma.
KLM: ”Ég vil nú auðvitað helst að sveitarfélögin sameinist sjálf af frjálsum og fúsum vilja. En það gæti þurft að hjálpa þeim til þess. Og þess vegan hef ég nefnt þessa lágmarksíbúafjöldatölu, að setja hana upp í 1000.
----------
Ráðherrann gerir enga tilraun til að koma með rök fyrir tillögunni, aðeins þann vilja ríkisins til að flytja fleiri verkefni frá ríkinu yfir á sveitarfélögin. Tilhneiging sem ríkið hefur haft ansi lengi og framkvæmt án þess að bera endilega undir sveitarfélögin.
Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga hefur verið deiluefni ansi lengi og það verður að segjast að ríkið með fjármálaráðherra í fararbroddi hefur ekki sýnt minnsta vilja til að koma til móts við óskir sveitarfélaganna, jafnvel þótt að þau hafi verið rekin með tapi síðustu ár, en ríkið hafi fitnað eins og púki á fjósbita.
Mun eðlilegra myndi ég telja aðsetja einhverja hámarksstærð á sveitarfélag í landfræðilegri skilgreiningu. Það er mjög óeðlilegt að ætlast til að fólk sækji þjónustu innan sveitarfélags, fleiri hundruð kílómetra leið, eins og tillagan mun leiða til.
Þau sveitarfélög á Íslandi sem eru með minnsta útsvarið eru tiltölulega fámennir sveitahreppar. Þessir sömu hreppar eru jafnframt þeir sem eru að skila bestum rekstri og þar eru álögur á íbúanna jafnframt í beinu hlutfalli við þjónustuna. Í stórum sameinuðum sveitarfélögum er þessu yfirleitt öfugt farið. Ekki hefur með neinum hætti verið sýnt fram á að sameining sveitarfélaga hafi skilað raunverulegum árangri fyrir íbúana. Í fleiri tilfellum en færri má þó sjá að sameining hafi aukið á fólksflótta úr strjábýlli hlutum sameinaðs sveitarfélags, enda er það tilfellið að þjónusta og fjármagn færist til stæsta staðarins á kostnað hinna minni. Verður því ekki annað séð en að hugmynd ráðherrans sé til þess eins fallin að auka á byggðarröskun í landinu.
Það er kaldhæðnislegt að stjórnvöld séu í krossför gegn byggðum landsins. Þetta eru kanski mótvægisaðgerðir gegn samdrætti í höfuðborginni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.4.2008 | 17:36
Er misrétti sem bitnar á öðrum ásættanlegra en annað misrétti ?
Maður spyr sig.
Áhugi Reykvíkinga á misrétti eða úrbótum á misrétti virðist einskorðast við það að "leiðrétta atkvæðavægi landsmanna". Þrátt fyrir þá staðreynd að meint misrétti leiði ekki til misréttis fyrir stjórnmálaflokkana. Þingmannafjöldi þeirra er hvort eð er bundinn af heildarfjölda atkvæða á landsvísu.
Þannig er áhugi Reykvíkinga á að leiðrétta það gríðarlega misrétti sem er í afleitum samgöngum víða um land, afar takmarkaður. Leiðist umræðan undir þeim kringumstæðum þá undantekningarlaust til þess að reiknuð hagkvæmni að ýmsum framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu og borin saman við umrædda framkvæmd á landsbyggðinni.
Í greininni "Veruleikafirrtir Vestfirðingar" sýnir höfundurinn Jón Otti Jónsson prentari og samfylkingarmaður, sínar verstu hliðar. Í greininni segir hann óbeint Vestfirðinga vera plágu á þjóðinni eða blóðsugu. Heimtufrekja þeirra og annara landsbyggðarmanna sé gífurleg kvöð á þjóðinni og ein megin ástæða fyrir slæmu ástandi á höfuðborgarsvæðinu. Kröfur landsbyggðarinnar um að fá til baka einhvað af skattpeningum sínum er tóm mál um að tala og réttast að leggja af byggð á meiriparti landsins, enda má auðveldlega nýta td. fiskimiðin hvaðan sem er.
Það kann vel að vera að Jón Otti sé samfylkingarmaður, en grein hans á fátt skylt við jafnaðarhugsjón eða jafnaðarmennsku. Eitt er þó rétt hjá honum að fiskimiðin má nýta hvaðan sem er, enda er ég þess full viss að Portúgalar, Spánverjar og Frakkar eru boðnir og búnir til að nýta þau. Rök fyrir búsetu úti á landi eru þau sömu og fyrir búsetu á Íslandi almennt. Sjálfsagt kæmi það sér betur fyrir Evrópubúa almennt að þeir fjármunir sem fara í rekstur Íslenska þjóðfélagsins, færu í sameiginlegann rekstur Evrópusamfélagsins. Við höfum hinsvegar ákveðið að fara aðra leið.
Í dag eru rúmir 600 km milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar sem er 3,5 sinnum lengra en á sumrin. Í dag eru einnig tæpir 700 km milli Bíldudals og Þingeyrar sem er tæplega 7 sinnum lengra en á sumrin. Er það ásættanlegt? Þætti fólki það vera ásættanlegt að leiðin Reykjavík-Keflavík, sem er 47 km, væri um 200km yfir veturinn? Eða Ísafjörður-Bolungarvík væri 100 km þriðjapart úr ári? Ég held ekki. Og þegar menn gera sig breiða í tali um sanngjarnar vegaframkvæmdir útfrá fólksfjölda, vill það gleymast að allir þegnar lýðveldisins borga sömu skatta og eiga því rétt á sömu þjónustu, óháð fjárhag, kyni, ætterni, þjóðerni og búsetu. Misrétti sem bitnar á öðrum virðist oft vera svokallað jákvætt misrétti.
2.4.2008 | 23:16
Sveitarfélagið Vestfirðir ?
Miðað við umræður síðustu daga held ég að það sé óhætt að kveðja hugmyndina um eitt sveitarfélag á Vestfjörðum. Ef það er of langt FRÁ Ísafirði á Þingeyri, hlítur að vera alltof langt á Patreksfjörð. Það má allt eins spyrja hvort að rétt sé að hverfa að einhverju leiti aftur til baka.
Raunar hefur mér fundist umræða um sameiningu sveitarfélaga vera á algerum villigötum. Hversvegna er verið að sameina sveitarfélög sem eiga ekkert sameiginlegt, nema kanski það að vera fámenn og ílla stödd fjárhagslega. Hversvegna eru sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ekki sameinuð? Þau liggja flest upp að hvort öðru í skipulagslegum skilningi. Eiga meira sameiginlegt en mörg önnur og næðu í flestum tilfellum fram meiri samlegðaráhrifum en nást þar sem fjarlægðirnar eru meiri.
Það er í það minnsta eðlileg krafa að það sé reglulega skoðað hvað áunnist hefur með þeim sameiningum sem farið hafa fram. Hver er útkoman fyrir íbúana. Er þjónustan betri, meiri eða í samræmi við þá breitingu sem orðið hefur á greiðslum íbúa til sveitarfélagsins.
Ég vil halda því fram að sameining sveitarfélaga gagnist aðallega ríkinu. Með stærri rekstrareiningum má koma stærri verkefnum frá ríkinu. Ekki til að ríkið tapi á því. Eða hefur ykkur sýnst það?
10.3.2008 | 21:35
Er að spara fyrir hernum ?
Það er nú alveg makalaust að fylgjast með því hvað Björn Bjarnason er tvöfaldur. Í öðru orðinu er hann að efla löggæsluna en á sama tíma er hann að skera niður útgjöld til lögreglunnar.
Sameining lögregluumdæma í nafni hagræðis og eflingar löggæslustarfa er eitt stórt kjaftæði. Reynslan sýnir að þessi leið er alltaf farinn til að klípa fjármagn í burtu.
Það vildi ég að hægt væri að draga ráðherra til ábyrgðar fyrir embættisafglöp. En eins og dæmin sanna með borgarstjóra, axla þeir ábyrgð með öðrum og flóknari hætti.
![]() |
Fjármál lögreglunnar á Suðurnesjum rædd við ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.3.2008 | 22:20
Í þorpi úti á landi.
Þetta er nú alveg makalaust ástand. Það er ekki hægt að búa í höfuðborginni, vegna þess að húsnæðisverð þar er komið langt út úr öllum veruleika, ekki síst fyrir tilstylli sveitarfélaga á svæðinu. En úti á landi þar sem húsnæðisverð er þó þolanlegt, er fólki ekki vært vegna stjórnavaldsaðgerða/aðgerðaleysis. Atvinnufrelsi er fótum troðið og víða er grunnþættir samfélagsins, vegasamgöngur, sími og rafmagn ekki af þeim toga sem nútímasamfélag gerir kröfur til.
Útkoman verður því sú, að velmegun og uppgangur síðustu ára hvetur til landsflótta í stórum stíl ............... þetta er snúið !
![]() |
Verst er að eiga ekkert „heim“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.3.2008 | 20:04
Ekkert vit í að flytja til Reykjavíkur.
Eða eru það ekki skilaboðin?
Þessi frétt segir mér það, að ef ég þarf að hrökklast úr mínu byggðarlagi eigi ég frekar að flytja til Danmerkur en á höfuðborgarsvæðið. Spurning.....
![]() |
Ekkert vit í að flytja til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.3.2008 | 16:02
Björgun frá fordómum.
Það er að minnsta kost það sem ég tel mesta þörf á. Vestfirðingar hafa orðið að þola ótrúlega fordóma í gegnum árin. Síðan að kvótakerfið var sett á, hafa möguleikar Vestfirðinga til að afla lísfbjargar verið rifnir af þeim eins og föt á útsölu. En á sama tíma hefur lítið sem ekkert verið gert til að færa landshlutann fram í tíma varðandi samgöngur og tengingu við heiminn. Ábendingar Vestfirðinga í þá veru hafa verið úthrópaðar sem væl og aumingjaskapur.
Sú staða að Vestfirðir eru óumdeilanlega áratugum á eftir öðrum landshlutum í tengingu, er óásættanlegt og ríkisstjórnum Íslands til skammar. Vestfirðingar hafa verið meðhöndlaðir eins og óhreinu börn Adams og Evu.
Ég óska þessum hóp velfarnaðar í sínu starfi og vænti þess að fá að sjá raunhæfar tillögur frá þeim til uppbyggingar á Vestfirsku samfélagi. Hvað mig sjálfann áhrærir, er ég þeirrar skoðunar að allir möguleikar til að auka atvinnu á svæðinu séu þess virði að skoða, þar á meðal Olíuhreinsistöð. Ég tel að ekki sé enn forsenda til að taka afstöðu með eða á móti, þar sem fullt af upplýsingum vantar. Að taka afstöðu núna er jafn vitlaust hvort sem það er með eða á móti. Það er alltént mín skoðun.
![]() |
Bloggarar taka sig saman og vilja „bjarga Vestfjörðum" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.2.2008 | 14:31
Orðum fylgir ábyrgð.
Því fer fjarri að ég sé búinn að ganga með þann draum lengi í maganum, að setja upp mína eigin bloggsíðu. Satt að segja hafði mér aldrei dottið það í hug fyrr en mjög nýlega. Hins vegar hefur mér þótt gaman að lesa annara blogg og sjá þannig hverslags hugmyndir og skoðanir fólk hefur. Þegar þannig hefur borið undir, hef ég gjarnan skipst á skoðunum við viðkomandi bloggara og bent á aðra fleti á mönnum og málefnum, en viðkomandi hafa haft. Ég hef talið að það væri í raun hlutur af frjálsum tjáskiptum og einmitt hluti af "blogg-menningunni", að skoðanaskipti væru á jafnréttisgrundvelli, á grundvelli málefna og þeir sem settu fram gagnríni á aðra tækju jafnframt við sambærilegri gagnrýni á eigin skoðanir og viðhorf.
Það að ég skuli vera farinn að blogga, er ákveðin (en óbein) áskorun frá ónafngreindum aðila, sem gat ekki tekið við gagnríni á skrif sín, en kaus þess í stað að læsa síðunni sinni. Ég geri meiri kröfur til mín en svo, og þigg málefnalegar athugasemdir.